Afþreying í nágrenni Hala

Jökulsárlón

Jökulsárlón er í 12 kílómetra fjarlægð frá Hala. Þaðan eru bátsferðir um Lónið og gaman er að fara fótgangandi um svæðið. Hægt er að ganga inn með Lóninu, en einnig er stórkostleg upplifun að fara niður að sjó og leika við úthafsöldurnar. Þar velkist ísinn í svarrandi brimróti Atlantshafsins og myndar alla vega kynjamyndir er hann rekur upp á svarta sandströndina. Gæta þarf þó fyllstu varúðar í fjöruborðinu. Upplýsingar og bókanir má sjá hér.

Jöklagöngur og íshellaferðir

Fyrirtækið Glacier Adventures býður upp á jöklagöngur allt árið um kring á Breiðamerkurjökli. Á veturna frá 1. nóvember til 1. apríl er boðið upp á íshellaferðir á sama svæði. Upplýsingar og bókanir sjá hér.

Vatnajökulsþjóðgarður í Skaftafelli

Það er um það bil 50 min akstur frá Hala yfir í þjónustumiðstöðina í Vatnajökulsþjóðgarði í Skaftafelli í Öræfum. Í Skaftafelli eru merktar gönguleiðir fyrir stuttar og langar göngur. Vinsæl er gönguleiðin að Svartafossi sem er um 1 klst. ganga. Frekari upplýsingar um Skaftafell og umhverfi eru hér og upplýsingar um afþreyingu í nágrenni þjóðgarðsins eru hér.

Fjallsárlón

Fjallsárlón er vestar en Jökulsárlón. Þar er nú vinsæll ferðamannastaður. Við Fjallsárlón er nýr veitingastaður og farnar eru bátsferðir um lónið. Gaman er að ganga um svæðið, njóta návígis við jökulinn og kanna fjölbreytt jöklalandslag. Frekari upplýsingar er að finna hér.

Sleða-, snjóbíla- eða jeppaferðir á Vatnajökli

Ís og Ævintýri eru með jeppa- eða sleðaferðir á Vatnajökli. Lagt er af stað frá Vagnstöðum í Suðursveit eða frá afleggjara austan Smyrlabjarga um 20 km í austur frá Hala. Einnig er hægt að panta snjóbílaferðir fyrir stærri hópa. Upplýsingar og bókanir sjá hér.

Ferðir í Ingólfshöfða

Skemmtilegar ferðir á dráttarvél með heyvagni og góðri leiðsögn heimamanna eru farnar út í Ingólfshöfða yfir sumartímann. Þar er fjölbreytt fuglalíf og hægt að komast í návígi við lunda og fleiri tegundir svartfugla. Einnig verpir einkennisfugl Suðausturlands í höfðanum, skúmurinn og lætur gjarnan vita af sér yfir varptímann. Upplýsingar og bókanir sjá hér.

Hestaleigur

Það eru þrjár hestaleigur í innan við klukkutíma akstursfjarlægð frá Hala. Næst Hala eru Hlíðabergshestar aðeins í 15 mínútna fjarlagð austur í Borgarhöfn.

Fjölbreytt afþreying í Ríki Vatnajökuls

Velkomið er að hafa samband við okkur á Hala ef að þið leitið að einhverju sérstöku eða vantar frekari upplýsingar

Móttaka er í Þórbergssetri. Þar er hægt að fá frekari upplýsingar um afþreyingu innan Ríkis Vatnajökuls og kort sem nær yfir alla sýsluna. 

Starfsfólk í móttöku er reiðubúið að aðstoða þig við að bóka afþreyingu á svæðinu eða afla upplýsinga. Mikilvægt er að hafa beint samband við afþreyingarfyrirtæki áður en komið er á staðinn til að fá upplýsingar um bókunarstöðu, aðstæður og veðurútlit.