Um okkur

Sveitahótelið á Hala býður þér að koma í heimsókn og njóta dvalar í Suðursveit og ferðast og fræðast um nágrennið. Þórbergssetur er einstakt menningarsetur þar sem boðið er upp á þjóðlegan mat af svæðinu. Á Hala er einnig búskapur með um 200 kindur og allar afurðir af þeim eru nýttar í veitingahúsi staðarins. 

Heimamenn eru ávallt reiðubúnir að fræða gesti um sögu og náttúru svæðisins umhverfis Hala. Allt frá árinu 1860 hefur sama fjölskyldan búið á Breiðabólsstaðarbæjum og á Hala. Fjölnir Torfason og hans sonur Arnór Fjölnisson eru fimmti og sjötti ættliðurinn sem býr á Hala með fjölskyldum sínum ásamt Steinþóri Torfasyni bróður Fjölnis og hans fjölskyldu. Sögurnar af forfeðrum þeirra eru mjög skýrar í ritum Þórbergs Þórðarsonar rithöfundar frá Hala og frásögum Steinþórs Þórðarsonar ( 1892 – 1981) bróður hans sem bjó á Hala allt sitt líf. Þekking á umhverfi og ótrúlegum breytingum og litbrigðum lifandi náttúru allt um kring spannar því orðið nær 160 ár og hörð lífsbarátta fólksins er lifandi veruleiki í verkum þeirra bræðra. Mikilvægt er að sú þekking glatist ekki nú í tæknivæddri veröld nútímans og gestir sem koma á Hala fái að njóta þess að fræðast og heyra sögur af svæðinu.

Þorbjörg Arnórsdóttir forstöðumaður Þórbergsseturs var kennari og síðar skólastjóri í litla sveitaskólanum í Suðursveit. Skólanum var lokað árið 2006 og Þorbjörg og Fjölnir ásamt fjölskyldu sinni stóðu að uppbyggingu Þórbergsseturs sem var opnað sama ár.

Með heimsókn á Hala í Suðursveit kynnist þú umhverfi í sveit á Íslandi og gestir eru boðnir velkomnir að sveitasið. Reynt er að veita persónulega þjónustu bæði af starfsfólki og gestgjöfum. Hægt er að kalla gestgjafa á staðinn til skrafs og ráðgerða ef þeir eru ekki viðlátnir er gesti ber að garði.