Þórbergssetur er menningarsetur þar sem sett hefur verið upp sýning um Þórberg Þórðarson rithöfund. Hann fæddist og ólst upp á Hala í Suðursveit (1888 – 1974) og fjallaði mikið um sveitina sína Suðursveit náttúru og mannlíf í verkum sínum. Þórbergssetur er aðeins 12 km austar en Jökulsárlón sem að er einn fjölsóttasti ferðamannastaður á Íslandi. Segja má að Þórbergssetur sé eitt af nútíma söfnum eða setrum á Íslandi þar sem áhersla er lögð á að kynna sögu staðarins og staðbundna þekkingu heimamanna á umhverfi og náttúru. Bókaveggurinn sem blasir við á norðurhlið hússins er tákn um þann menningararf sem við Íslendingar eigum dýrastan, sem eru bókmenntir og sagnahefð.
Sýningin innan dyra sem er hönnuð af Jóni Þórissyni leikmyndahönnuði er einstök skemmtun og upplifun með ólíkum leikmyndum og textum Þórbergs. Gestirnir fara í í söguferð til fortíðar með Þórbergi Þórðarsyni sem hefur hlotið þann sess að vera einn af merkustu rithöfundum 20. aldarinnar á Íslandi. Þórbergur er talinn hafa hvað mesta þekkingu samtímamanna sinna á orðaforða og stílbrigðum íslensks máls og búa yfir undraverðri færni í ritun á íslenska tungu.